Að byrja

Upplýsingar um innleiðingu Eden stefnunnar

Að þróa menningu út frá Eden stefnunni snýst um að vinna markvisst með einstaklinginn, skipulagið  og umhverfið. Í þessari nýju nálgun sem skipt er upp í 12 leiðarvísa og 21 verkþátt er lögð áhersla á vellíðan íbúa jafnt sem starfsfólks og aðstandenda.

Gögnin eru hönnuð fyrir starfsfólk og teymi til að vinna með en ekki er ætlast til út frá verkþáttum að fólk geri meira dags daglega eða vinni umfram það sem gert er nú þegar, heldur eru leiðarvísar og verkþættir leiðbeinandi stuðningur um að gera gott betra í daglegu starfi og um leið matstæki á hversu vel gengur að vinna með persónumiðaða umönnun og þjónustu.

Þessir leiðarvísar og verkþættir tryggja að allir séu með í ferlinu og vinni saman, íbúar, aðstandendur og starfsfólk.

Í upphafi veitir Eden stefnan aðgang að 12 gagnlegum leiðarvísum og 21 leiðbeinandi verkþáttum til þess að hefja Eden vegferðina og þróa persónumiðaða umönnun og þjónustu. Þessir leiðarvísar og verkþættir leiða ykkur áfram á vegferðinni en síðar bætast við fleiri verkþættir sem tilheyra hverjum leiðarvísi eftir því sem þróunin heldur áfram.
Höfuðstöðvar Eden eru í Bandaríkjunum og byggja á áratuga reynslu persónumiðaðrar umönnunar og þjónustu sem hefur verið í stöðugri þróun út frá nýjustu þekkingu hverju sinni og í samstarfi við fjölda hjúkrunarheimila innan og utan Bandaríkjanna.
Eden á Íslandi er umboðsaðili fyrir Eden Alternative® sem inniber aðgang að gögnum, fræðslu og viðburðum ásamt heimild til að þýða og aðlaga gögn að íslenskum aðstæðum. Öll gögn frá Eden Alternative® eru höfundaréttarvarin.

Eden Ísland er hluti af alþjóðahópi sem vinnur saman að þróun og samhæfingu Eden í alþjóðarumhverfi þar sem tekið er tillit til mismunandi menningar og aðstæðna. Þróun síðustu ára í Bandaríkjunum undir stjórn fráfarandi framkvæmdastjóra sem var nýsköpunarfræðingur hefur leitt til nýrrar nálgunar við innleiðingu Eden á hjúkrunarheimili.

Þessi nýja nálgun byggir á sömu gögnum og áður en eru færð í aðgengilegra form og ferli þar sem leitast er við að hafa orðalag og orðnotkun á nútímalegu tungutaki í takt við nýjustu þekkingu.

Á Íslandi hefur verið unnið með Eden frá árinu 2008. Komin er reynsla af að aðlaga stefnuna að íslenskum aðstæðum og menningu. Árið 2013 var fyrsta Eden heimilið vottað á Íslandi og fögnum við þeirri þróun og möguleikum sem þessi nýju vegvísar og verkþættir gefa við áframhaldandi þróun.

Hjúkrunarheimili sem óska eftir að innleiða Eden og hefja vegferðina fá kynningu og upplýsingar um hvað felst í að vera Eden heimili. Síðan hefst formlegt samstarf með undirrituðu samkomulagi og afhendingu gagna. Sýna þarf framvindu og uppfylla skilyrði samkomulagsins til að hægt sé að sækja um skráningu og vottun sem Eden heimili. Endurnýja þarf vottunina á þriggja ára fresti.

Myndin hér fyrir neðan sýnir upphaf ferlis og vinnu við innleiðingu Eden stefnunnar til umsóknar sem skráð og vottað Eden heimili.

Upphaf ferlis og vinnu við innleiðingu Eden stefnunnar til umsóknar sem skráð og vottað Eden heimili

Gögn í þessu riti eru ætluð til aðstoðar við þróun hjúkrunarheimila að innleiða og framkvæma persónumiðaða umönnun og þjónustu. Markmiðið með Eden er að þróa menningu og viðhorf sem leggur áherslu á að efla sjálfræði og lífsgæði einstaklinga sem njóta stuðnings við athafnir daglegs lífs.

Stefnan hefur ákveðin markmið, viðhorf og gildi sem skapa grunn að þróun persónumiðaðrar umönnunar og þjónustu. Einnig er lögð áhersla á vellíðan starfsfólks og aðstandenda þar sem tengsl skipta máli. Stefnan veitir okkur innblástur og er áskorun til að fara nýja leiðir. 
Til að fara þá vegferð þróunar sem Eden leiðir okkur þarf að horfa á samfélagið í heild sinni þ.e.einstaklinginn, skipulagið og umhverfið.

Eftirfarandi 12 þættir eru leiðarvísar til að ná árangri við persónumiðaða umönnun og þjónustu:

  1. Forysta 
  2. Samskipti
  3. Orð og orðanotkun
  4. Fræðsla
  5. Einmanaleiki, vanmáttur og leiði
  6. Tengsl og tengslamyndun
  7. Fagleg þjónusta
  8. Skipulag daglegs lífs
  9. Næring og skipulag máltíða
  10. Stofnanagildrur
  11. Heimilislíf
  12. Tölfræðilegar upplýsingar, eftirlit og gæðaviðmið

Undir hverjum leiðavísi eru verkþættir frá einum uppí átta. Hver verkþáttur er metinn út frá:

  • Hversu mikið átak er að koma hverjum þætti í framkvæmd.
  • Hvaða áhrif það hefur á íbúa, starfsfólk, aðstandendur og aðra sem koma að heimilinu.
  • Hversu sýnilegur er árangur hvers verkþáttar fyrir íbúa, starfsfólk, aðstandendur og aðra sem koma að heimilinu.

Hver verkþáttur felur í sér:

  • “Hvers vegna”, þessi þáttur er mikilvægur til að ná árangri í persónumiðaðri nálgun.
  • Forsendur, staðfastur vilji og undirbúningur þarf að vera til staðar til að ná árangri.
  • Heimilið metur eigin stöðu í upphafi vegferðar út frá mælanlegum, tölulegum upplýsingum og þekkingu á innri starfsemi heimilisins.
  • Þróunin lýsir með ákveðnum þrepum hvernig mögulegt er að þróast áfram að settu marki.
  • Við mat á árangri er hægt að taka saman gögn sem sýna framvindu, árangur og seiglu við innleiðingu þeirra verkþátta sem framkvæmdir eru.

Leiðarvísar og verkþættir fyrsta áfanga eru þýddir á íslensku, en ítarleg útfærsla er á ensku. Eyðublöð fyrir verkþætti fá heimilin send til sín í aðgengilegu formi til að vinna með.

Scroll to Top